Þegar kosning fer í vaskinn

Hér hefur áður verið fjallað um mikilvægi vandaðrar framkvæmdar þegar að kosningum kemur (Ekki dæma í eigin máli). Eins og þar kemur fram skiptir máli hvernig spurningar eru settar fram, hvernig upplýsingagjöf er háttað og að fullt traust ríki til þeirra sem umsjón hafa með framkvæmdinni.


Fyrir fáum árum var framkvæmd formannskjörs í fjölmennu stéttarfélagi  á Íslandi gagnrýnd þar sem ekki þótti nægilega vel að verki staðið.  Eftir lögfræðilega úttekt á framkvæmdinni  var niðurstaðan sú að kjörið skildi endurtekið vegna verulegra ágalla á fyrri framkvæmd.  Ágallarnir fólust m.a. í því hvernig tiltekinn frambjóðandi kom skilaboðum til kjósenda með kjörgögnum á sama tíma og aðrir höfðu ekki tækifæri til þess og einnig því hvernig ósamræmi var í tímamörkum atkvæðaskila sem gátu bæði verið rafræn og með hefbundnum pósti .


Væntanlega var hér um klaufaskap og byrjendamistök kjörnefndar að ræða en niðurstaðan varð sú að ógilda þurfti umrædda kosningu og hún var svo endurtekin. Þetta var góð niðurstaða en hinsvegar má velta fyrir sér hvort þetta hafi skaðað trúverðugleika kosningarinnar og mögulega dregið úr þátttöku í seinni umferðinni enda vörðu mörg hundruð þátttakendur tíma sínum til einskis þegar þeir greiddu atkvæði.  

Það er ljóst að auðveldlega hefði mátt komast hjá þessum mistökum í framkvæmdinni og þetta sýnir hve mikilvægt er að fylgja skýru verklagi og standa faglega að verki þegar kemur að kosningum. 

Leave a Reply

Your email address will not be published.