Í fyrsta skiptið sem aðferð færanlegs atkvæðis (Single Transferable Vote aðferð) var beitt í rafrænu formannskjöri tókst vel til. Aðferðin hefur marga kosti og færa má rök fyrir því að lýðræðið njóti sín betur með þeirr aðferð en hefðbundnum kosningaaðferðum. Hér er að finna samantekt sem unnin var Þorkeli Helgasyni stærðfræðingi og Þórði Höskuldssyni viðskiptafræðingi í kjölfarið formannskjörs Samfylkingarinnar í byrjun sumars 2016.
——————————————
Kjör formanns Samfylkingarinnar fór fram dagana 28. maí til 3. júní 2016. Í framboði voru þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttir.
Við kjörið var beitt aðferð færanlegs atkvæðis (e. STV eða Single Transferable Vote) og var það í fyrsta sinn sem aðferðin var notuð í vali á einstaklingi í opinberu kjöri hér á landi – eftir því sem best er vitað. Samkvæmt aðferðinni var kjósendum gert að velja einn frambjóðanda að aðalvali en síðan gefinn kostur á að raða öðrum, einum eða fleiri, í forgangsröð sem varaval.
Talningin
Ljósi er varpað á uppgjörsaðferðina í meðfylgjandi súluriti. Þar hefur hver frambjóðandi sinn lit.
Þorkell Helgason
Þórður Höskuldsson
Fyrsta hrina, sýnir hvernig atkvæði að aðalvali kjósenda skiptist á milli frambjóðenda. Oddný Harðardóttir hlaut 42,1% aðalvalsatkvæða. Þar sem það er ekki hreinn meirihluti mælir talningarreglan fyrir um að sá sem fæst fékk atkvæði, Guðmundur Ari, skuli dæmdur úr leik og atkvæði greidd honum færð til hinna í samræmi við óskir kjósenda að fyrsta varavali. Í annarri hrinu hefur hlutur þeirra þriggja sem eftir eru aukist nokkuð, þó ekki nóg til að neinn þeirra nái hreinum meirihluta. Því verður enn að færa til atkvæði og þá frá þeim frambjóðanda sem nú hefur fæst atkvæði, en það er Helgi Hjörvar. Að því loknu hafa atkvæðin safnast saman á tvo frambjóðendur og úrslitin orðin skýr: Oddný Harðardóttir fær tæp 60% atkvæða en Magnús Orri rúm 40%.
Athyglisvert er hve fá atkvæði fara forgörðum vegna þess að kjósendur hafi ekki tilgreint neitt varaval. Yfir 95% atkvæða skila sér að lokum til tveggja efstu frambjóðendanna.
Niðurstöður
Röð frambjóðendanna breytist ekki við tilfærslu atkvæðanna. Var þessi röðunaraðferð þá óþörf? Svo er ekki. Oddný fékk fékk að vísu flest atkvæði þegar í fyrstu hrinu, að aðalvali kjósenda, en hún náði ekki hreinum meirihluta. Með því að taka tillit til annars (og í örfáum tilvikum þriðja) vals kjósenda má á hinn bóginn með sanni segja að Oddný hafi notið stuðnings 60% kjósenda.
Það er athyglisvert, upp á frekari not þessarar aðferðar, að ekki bar nauðsyn til að krefja kjósendur um að raða öllum frambjóðendum. Í þessu tilviki, þegar þeir voru fjórir, nægir að raða tveimur, að velja annan að aðalvali og hinn til vara.
Prófað var að beita uppgjörsaðferð af öðrum toga, aðferð sem kennd er við Condorcet nokkurn. Þá er röðun kjósenda á frambjóðendum nýtt til samanburðar á sérhverjum tveimur þeirra, og þess freistað að finna þann sem sigrar alla hina í slíkri tvenndarkeppni. Niðurstöðu, sem fæst með því móti, telja margir vera þá mest afgerandi í þessum fræðum. Geta má þess að aðferð af þessu tagi var notuð nýlega í prófkjörum Pírata fyrir komandi þingkosningar. Enn og aftur ber Oddný sigur úr býtum í þvílíku uppgjöri.
Kjör á forseti Íslands fer fram með einföldu meirihlutakjöri; kjósendur fá aðeins einn kross til að tjá val sitt. Æskilegt er að breyta stjórnarskrárákvæðum um forsetakjör þannig að staðfesta megi að kjörinn forseti njóti stuðnings hreins meirihluta. Merking að aðalvali og einu varavali væri einföld og skilvirk aðferð í því skyni.
ATH. umfjöllun um tæknilega nálgun má finna hér>>
Ítarlegri umfjöllun um framkvæmdina má finna með því að smella á tengilinn hér að neðan.