Þeim sem vilja kanna viðhorf standa til boða mörg tól sem gera þeim mögulegt að setja upp og framkvæma kannanir á örskömmum tíma.
Vel hannaðar og markvissar kannanir skila verðmætum upplýsingum til þess sem kannar, hvort sem það eru viðskiptavinir, félagsmenn eða aðrir. Markmiðið þegar könnun er sett upp er að ná fram áreiðanlegum og góðum upplýsingum. Það gerist samt stundum að til verða kannanir sem valda pirringi og skapa neikvæðni á meðal hinna aðspurðu. Þegar upp er staðið taka færri þátt og meiri neikvæðni kemur fram í niðurstöðum ásamt því að viðhorf til könnuðarins verður neikvæðara en áður.
Til að forðast þetta er mikilvægt að vera gagnrýninn í spurninga- og kannanagerðinni og reyna eftir megni að læra af mögulegum fyrri mistökum. Því miður eru reglulega sendar út kannanir sem gætu bæði talist heimskulegar og leiðinlegar og verða að litlu gagni.
Mistök í kannanagerðinni má setja í nokkra megin flokka. Með því að forðast mistök er kannanagerðin á réttri leið og jafnvel verða til kannanir sem þátttakendur hafa ánægju af að svara. Bæði fást þá fram betri niðurstöður og ef sérstaklega vel tekst til gæti þetta skapað jákvæðni og jákvæða umfjöllum um aðilann sem fjallað er um í könnuninni.
Mistök sem ber að forðast.
Á bloggsíðu surveypolice.com er fjallað um helstu kvartanir sem berast frá þeim sem taka þátt í könnunum og hér er fjallað um nokkrar þeirra.
1. Óljósar eða villandi upplýsingar um tilgang könnunar
Tilraunir til að fela markaðssetningu á vöru sem viðhorfs- eða rannsóknakannanir þykja sérlega leiðinlegar. Einnig má búast við neikvæðum viðbrögðum ef ekki er gefið upp hver stendur á bakvið tiltekna könnun. Fólk hefur ekki áhuga á að taka þátt í könnunum þar sem aðilinn að baki þeim er í felum á sama tíma og hann ætlast til að hinn aðspurði veiti ýmsar persónulegar upplýsingar um sjálfan sig.
2. Tímafrekar kannanir þar sem sömu spurningarnar koma fyrir oftar en einu sinni
Lítt ígrundaðar kannanir þar sem sömu eða sambærilegar spurningar koma fyrir oftar en einu sinni trufla marga þátttakendur í könnum. Skortur á rýni og vönduðum vinnubrögðum í kannanagerð geta leitt til þessa og óþarflega langar kannanir gefa þátttakendum þá tilfinningu að virðing fyrir tíma þeirra sé ekki uppá marga fiska.
Erlent fyrirtæki sem sinnir viðhorfsrannsóknum birti niðurstöður rannsóknar þar sem spurt var um reynslu af kannanaþátttöku. Þar kom m.a. fram að nálægt 60% þeirra sem svöruðu, kvörtuðu undan þeim tíma sem það tekur að svara könnunum sem þeim eru sendar. Tæpur þriðjungur hópsins taldi að oft væru sömu eða sambærilegar spurningar að koma fyrir oftar en einu sinni í sömu könnuninni. Þetta hefur leitt til þess að fólk lætur ekki bjóða sér illa unnar og/eða of langar kannanir og neitar að taka þátt.
3. Ekki tekið tillit til þess sem áður hefur komið fram
Þátttakendur í könnunum verða pirraðir, eins og allir aðrir, þegar ekki er hlustað á þá. Þannig má nefna dæmi um manninn sem var spurður um starfsheiti strax í kjölfar þess að hann hafði svarað því að hann væri eftirlaunaþegi.
Reglulega kemur fyrir að bakgrunnsbreytur komi fyrir oftar en einu sinni í könnun þannig að í tvígang er spurt um atriði á borð við kyn, aldur og búsetu. Áður en eiginleg könnunin hefst er byrjað á þessu og svo í lok hennar koma sömu spurningar fyrir aftur.
4. Svarmöguleikar sem enda þátttöku viðkomandi í könnun
Það að enda þátttöku einstakra þátttakenda auðveldar þeim sem að könnun standa að sía út þann hóp sem þeir telja áhugaverðastann. Aðeins þeir sem teljast áhugaverðir fá svo frekari spurningar.
Hér þarf að vanda sig því að sá hluti hópsins sem ekki er áhugaverður er settur til hliðar og finnst í sumu tilfellum að lítið sé úr þeim gert með því. Þetta getur jafnvel endað í neikvæðri afstöðu til þess sem að könnuninni stendur.
Kannanir eru öflug tól til upplýsingaöflunar og geta skapað þekkingargrunn sem hægt er að byggja stórar og mikilvægar ákvarðanir á. Þeim þarf hinsvegar að beita af hófsemi og mikilvægt að sýna markhópnum virðingu. Þetta gerum við með skýrum og hnitmiðuðum spurningum, góðri upplýsingagjöf og stuttum könnunum.