Fyrir skömmu lauk íbúakosningu í Reykjanesbæ um deiliskipulag í Helguvík. Flott hjá þeim að nýta tæknina og það sem hún hefur uppá að bjóða til að auka lýðræði. Í umfjöllun Víkurfrétta – Sjá hér – kemur reyndar fram að margir bæjarfulltrúar ætli ekki að láta niðurstöðuna hafa áhrif á afstöðu þeirra sem skýtur skökku við. Til hvers að leita til fólksins ef ekki á að taka mark á því? Sérstaklega í ljósi þess að sveitarfélagið á sérlega erfitt fjárhagslega og ákveður samt að leggja í kostnað við kosningu sem kjörnir fulltrúar ætla ekki að taka mark á. Þetta er ekki beint til þess fallið að auka tiltrú manna á íbúalýðræði þ.e. ef á svo ekki að taka mark á niðurstöðunni eftir að íbúar hafa lagt á sig að taka þátt.
Lítil þolinmæði fyrir tæknilegum hindrunum
Fram kemur í frétt RÚV um málið að venjulegt fólk ráði ekki fram úr því að taka þátt– Sjá hér – Flækjustigið er hluti mjög dræmrar kjörsóknar. Það er ekki gott mál að klikka á framsetningu og ferlum í kosningum. Árangursríkara hefði verið að eyða meira púðri í að gera kosninguna bæði auðvelda og aðgengilega fyrir íbúa sveitarfélagsins. Nú er ekki annað að sjá en að sveitarfélagið sjálft hafi útbúið frambærilega umgjörð um kosninguna en velta má fyrir sér hvort Þjóðskrá sem sér samkvæmt lögum um íbúakosningar þurfi ekki að fínpússa sína ferla og gera þá aðgengilegri.
Við hjá Outcome könnunum eigum að baki hundruði rafrænna kosninga og reynslan hefur sýnt okkur að mikilvægt er að tryggja að ferlar séu einfaldir, að leiðbeiningar séu góðar og lendi fólk í vanda sé stutt í aðstoð. Loks, sé þess nokkur kostur eiga þátttakendur að geta klárað í einni lotu án þess að fara út úr ferli kosningarinnar.
Ekki skjóta framtakið niður
Þrátt fyrir að þátttaka hafi verið óásættanleg í þessari kosningu þá má ekki skjóta svona framtak niður heldur reyna að læra af því. Lýðræðið er mikilvægt þó okkur hér á Íslandi hætti til að gleyma því. Bæði Reykjanesbær og Þjóðskrá ættu að setjast yfir verkefnið á meðan það er í fersku minni og búa til betri framkvæmd og ferla.
Til eru ódýrari og markvissari leiðir – óformleg nálgun
Reykjanesbær ætti kannski að skoða hvort íbúakannanir fremur en íbúakosningar eigi ekki við í málum sem þessum. Þetta er jú bara ráðgefandi og því ekki að nota almennar rafrænar kannanir og hugsanlega rýnihópa úr samfélaginu til að fá sýn á afstöðu fjöldans. Það er örugglega miklu ódýrara, markvissara og tekur styttri tíma en formleg íbúakosning. Í samfélagi á borð við Reykjanesbæ ætti þetta auðveld framkvæmd og miklu betri en íbúakosning sem mjög fáir taka þátt í.
Þórður H.