Ekki dæma í eigin máli

Í könnunum og kosningum er lögð áhersla á að fá fram skýr svör við tilteknum spurningum hvort sem þar komi fram óþægilegur sannleikur eða ekki. Því er lagt upp úr því að spurningar séu skýrar og ekki leiðandi. Spurningin eða svarmöguleikar mega ekki vera litaðir af fyrirframgefinni afstöðu umsjónaraðilans eða eiganda verkefnisins. Niðurstöður úr slíkri spurningu gefa ekki sanna niðurstöðu.  

Eins skiptir máli að í framkvæmdinni séu allir þátttakendur jafnir. Að tiltekinn hluti hópsins fái ekki meiri eða minni hvatningu, ekki aðrar upplýsingar til að byggja sín svör á en restin af hópnum. Ef tiltekinn hluti hópsins sem vitað er að hefur hagsmuni eða sterkar skoðanir færi mikla hvatningu á meðan annar hluti hópsins er sniðgenginn skapast að öllum líkindum ólýðræðisleg skekkja og niðurstaðan hættir að endurspegla vilja fjöldans.

Loks skiptir það máli að þeir sem að framkvæmdinni koma séu taldir til þess hæfir og helst ekki litaðir af tilteknum óskum um niðurstöðu. Því eiga kjörstjórnir eða vinnuhópar um framkvæmd oft við og þar sitja þá þeir sem njóta trausts og þeir hafa þá einnig möguleika á að rýna þau vinnubrögð sem viðhöfð eru.

Við aðstæður þar sem einhver af ofangreindum atriðum geta átt við, hvort sem það er viljandi eða ekki er rétt að skoða hvort ekki eigi að leita eftir leiðsögn eða aðstoð.   

Ef þetta er haft í huga við framkvæmd kannana og kosninga ríkir betri sátt um niðurstöðuna og auðveldara að nýta hana í starfi.  Annars er betur heima setið en af stað farið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.