Ráðstöfun eigin hagsmuna telst til grundvallarréttinda
Það eru gömul og ný sannindi að rétturinn til að ráðstafa hagsmunum sínum telst til grundvallarréttinda. Mönnum ber að hlúa að grundvallarréttindum. Þar sem einstaklingar eiga sameiginlega hagsmuni felast þessi réttindi í því að greiða atkvæði um hagsmuni sína og eru menn í vissum tilvikum bundnir við niðurstöðu kosninga án tillits til fram komins vilja þeirra, þ.e. ef fleiri eru á andstæðri skoðun. Reglur um þetta koma fram í settum lögum eða samþykktum félaga. Það gefur auga leið að vanda þarf umbúnað atkvæðagreiðslu þannig að tryggt sé að niðurstaða hennar gefi rétta mynd af vilja þeirra sem greiddu atkvæði. Ekki er nægjanlegt að gæta að tæknilegri hlið atkvæðagreiðslu heldur þarf einnig að huga að gerð og framsetningu spurninga. Aðalatriðið er að niðurstaða atkvæðagreiðslu sé skýr.
Í hefðbundnum kosningum hafa kosningabærir einstaklingar kost á því að neyta réttar síns með viðeigandi vali á kjörseðil eða láta alveg hjá líða að merkja við nokkurn reit, þ.e. ef hann á annað borð ákveður að mæta á kjörstað. Gjarnan kemur fram í umsögn um niðurstöðu slíkra kosninga hverjir nýttu sér slíkan rétt, þótt þeir séu yfirleitt taldir með þeim sem ógiltu kjörseðil sinn með einhverjum hætti. Greinendur kosninga lesa stundum í þessar upplýsingar með þeim hætti að þessir kjósendur sýni með fálæti sínu tiltekna afstöðu til þess efnis sem kosið er um – aðra afstöðu en leiðir beinlínis af kjörsókn. Leiðir það hugann að því hvort mikilvægt sé á að bjóða upp á þennan möguleika í rafrænum kosningum.
Dugir að bjóða Já og Nei?
Þegar rafrænar atkvæðaseðlar eru settir upp kemur þannig til greina að bjóða svarmöguleikana Já og Neien auk þess Skila auðu möguleikann. Félög geta með eigin regluverki tekið ákvarðanir um hvernig staðið skuli að atkvæðagreiðslum um innri málefni. Meginreglur félagaréttar skulu þó ráða.
Þegar um vinnudeilur eða kjarasamninga er að ræða þá skal styðjast við niðurstöður Félagsdóms í ágreiningi um viðfangsefnið. Að öðrum kosti er hætta á að atkvæðagreiðslur verði dæmdar ólögmætar og endurtaka þurfi allt atkvæðagreiðsluferlið með tilheyrandi kostnaði og ónæði.
Almennt er gert ráð fyrir að skila megi auðu í atkvæðagreiðslum. Á meðan atkvæðagreiðslur voru haldnar með gamla laginu og fóru fram á pappír var auðvelt að skila af sér atkvæðaseðli án þess að merkja við. Í rafrænum atkvæðagreiðslum geta menn annaðhvort boðið Skila auðu sem kost á kjörseðli þegar valið er eða að atkvæðagreiðslukerfið sjálft leyfi innsendingu án þess að merkt hafi verið við nokkurn möguleika á kjörseðli. Lykilatriði er að huga að þessum útfærslum við skipulagningu atkvæðagreiðslu og upplýsa mögulega þátttakendur um hvernig skuli bera sig að. Tæknilegar útfærslur eru einfaldar í framkvæmd þegar skipulag liggur fyrir.
Við túlkun auðra atkvæðaseðla t.d. í atkvæðagreiðslum tengdum vinnudeilum og kjarasamningum gildir sú megin regla að auðir seðlar teljast með þeim atkvæðaseðlum sem samþykkja þá tillögu eða samning sem atkvæði eru greidd um. Skuli hafna tillögu þarf hópurinn sem stendur að höfnun að vera stærri en samtala þeirra sem samþykkja og skila auðu.
Af vinnuréttarvef ASÍ:
Ágreiningur hefur á stundum risið um hvernig skilja beri hugtakið „greidd atkvæði“ í 3.mgr. 5.gr. og þá hvort telja beri auð atkvæði með greiddum atkvæðum. Í Félagsdómi nr. 5/1988 var fjallað um túlkun 15.gr. l. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem fjallar um boðun verkfalla, en sem er efnislega samhljóða 3.mgr. 5.gr. laga nr. 80/1938 hvað áskilnað um meirihluta varðar. Í niðurstöðu félagsdóms segir: „ Hefði ætlun löggjafans verið sú, að afl atkvæða réði úrslitum í slíkri atkvæðagreiðslu, að skilyrði um kosningaþátttöku uppfylltu, hefði legið beint við að orða lagatextann með þeim hætti. Ákvæði greinarinnar um samþykki meiri hluta þátttakenda til verkfallsboðunar áskilur því samþykki hreins meiri hluta allra, sem skila atkvæðaseðli í slíkri atkvæðagreiðslu.“ Niðurstaðan varð sú, að auð atkvæði teldust með greiddum atkvæðum. Í ljósi þessa dóms verður 3.mgr. 5.gr. laga nr. 80/1938 vart túlkuð öðruvísi en svo, að áskilnaður sé um að yfir 50% allra greiddra atkvæða, þ.e. atkvæða sem skilað hefur verið og ekki eru ógild, þurfi til að fella kjarasamning. Framangreint má í raun umorða á þann hátt að atkvæði sem felur í sér afstöðuleysi kjósanda um kjarasamning, jafngildi atkvæði sem styður gildistöku kjarasamnings. Til árettingar er rétt að benda á, að þessi regla varð til fyrir tilstilli löggjafans og jafnvel þó stéttarfélög myndu vilja haga framkvæmd talningar í lögbundnum atkvæðagreiðslum um kjarasamninga og verkföll öðruvísi, væri slíkt ekki mögulegt án breytinga af hálfu Alþingis.
Nánari upplýsingar má finna á vinnuréttarvef ASÍ >>