SÁÁ kýs stjórnarmenn á hitafundi

Í lok júní fór fram aðalfundur SÁÁ. Í aðdraganda fundarins tókust tvær fylkingar á um sæti í stjórn og þar með val á formanni. Þegar fundurinn nálgaðist varð ljóst að um mjög stóran fund yrði að ræða þar sem fylkingarnar kölluðu sitt fólk til fundarins. Því var leitað til Könnuðar. Aðkoman var sú að bæði þurfti að halda vel um innskráningu á fundinn og svo rafrænar kosningar í kjölfarið sem þurftu að vera óumdeildar í allri framkvæmd. 
Eftir góðan undirbúning voru yfir 500 þátttakendur skráðir inn á fundinn. Innskráning hófst nokkru fyrir fund og á ríflega 2 klst.  höfðu allir fundarmenn greitt sín félagsgjöld og fengu þar með aðgang að rafrænum kjörgögnum samhliða innskráningunni. Hópurinn var mjög breiður og án teljandi erfiðleika var hægt að afhenda öllum kjörgögn með þeim hætti sem þeir sjálfir kusu, en það endurspeglar sveigjanleika kerfisins. 
Rafrænar kosningar fóru svo fram án teljandi vandræða þar sem flestir kusu í gegnum snjallsíma en einnig setti starfsfólk Könnuðar upp kjörstaði á fundinum og nokkrir tugir nýttu þá til að kjósa.  Þannig var hægt á nokkrum mínútum að fá fram skýra niðurstöðu í stjórnarkjöri þar sem yfir 500 manns greiddu atkvæði. Önnur fylkingin hafði betur og ekki var deilt um niðurstöðuna á þessum fundi. 

Að kosningum loknum fékk SÁÁ skýrslur um þátttökuskráningar og önnur gögn sem nýttust við frágang fundarins.