Tegundir kannana

Opnar vefkannanir

Opin vefkönnun er eins og nafnið gefur til kynna opin og engar hömlur eru á hverjir geti tekið þátt svo lengi sem þeir fá á annað borð aðgang að könnuninni. Opin vefkönnun ekki með takmarkaðan fjölda þátttakenda eins og lykilvarðar vefkannanir og tölvupóstkannanir. Það eina sem hægt er að takmarka er hversu oft er hægt að svara könnuninni úr sömu tölvu, en það er valkvætt.

Þar sem dreifingu opinna vefkannana verður ekki stýrt nema að litlu leyti og sami aðili getur svarað oftar en einu sinni verður að taka niðurstöðum úr slíkum könnunum með fyrirvara. Kosturinn við slíkar kannanir er hinsvegar hversu auðvelt er að dreifa þeim þó skilgreint úrtak þátttakenda sé ekki til staðar og þröskuldur sem falist getur í lykilorðum stöðvar ekki þátttakendur. Dæmi um slíkar kannanir eru t.d. spurning dagsins hjá fjölmiðli eða kannanir sem látnar eru dreifast um samfélagsvefi og beita þá jafnvel verðlaunapotti til hvatningar.

Pop-up kannanir

Annar möguleiki er að beita opnum könnunum sem pop-up eða gluggakönnunum. Þannig er hægt að birta lesendum tiltekinna vefsíða kannanir sem spretta fram þegar tiltekinn vefur er heimsóttur eða þegar tiltekin síða innan hans er heimsótt. Mörg fyrirtæki nýta þennan möguleika til að ná til þeirra sem sýna þeim, vörum þeirra eða þjónustu áhuga. Markmiðið er að ná fram upplýsingum um hverjir það eru sem sýna áhuga og hvað þeim finnst. Hægt er að stýra tíðni birtinga þannig að aðeins hluti þeirra sem sækja síður heim fái birtingu og eins er möguleiki á bæði magn- og tímamörkum. Loks er hægt að tengja verðlaunapott við þessar kannanir. 

Kiosk kannanir - vinnustöð

Í þessu tilfelli er opin könnun látin birtast á tölvu / tölvum með tiltekna staðsetningu þar sem gestir og gangandi eða valdir þátttakendur geta tekið þátt. Þessi aðferð getur átt við þegar fólk í biðsal, afgreiðslu eða þar sem hópur kemur saman er beðið um að svara nokkrum spurningum. Oft er verið að leita eftir afstöðu til þjónustu sem fólk þyggur í tengslum við staðsetninguna, en einnig er hægt að beita kiosk könnunum á t.d. vinnustöðum og í skólum þar sem hægt er að nýta tölvurými til að taka við svörum. Þannig er hægt að framkvæma starfsánægju- /þjónustumat hjá hópum sem annars gæti verið flókið að ná til.  

Lykilvarðar vefkannanir

Í ákveðnum tilfellum getur það verið heppilegt að fara þá leið að úthluta lyklum til hópsins sem svara á könnun. Þetta á við þegar hópurinn er ekki vel þekktur eða í tilfellum þar sem ekki er hægt að beita tölvupóstkönnunum svo vel sé. Lyklunum má t.d. úthluta í bréfpósti eða með upplýsingum sem dreift er  til hópsins sem svara á könnuninni – Þátttakandinn fær þá upplýsingar um könnunina, hvernig eigi að finna hana á netinu og svo lykilinn sem hleypir viðkomandi inn til að svara. Í kjölfar þátttöku verður viðkomandi lykill óvirkur. Sjaldnast næst sama þátttaka við notkun læstra vefkannana og þegar tölvupóstkannanir eiga í hlut en þessi leið er fær þegar ekki er hægt að styjast við tölvupóstkannanir. 

Tölvupóstkannanir

Tölvupóstkannanir eru hentugar þegar netföng þátttakenda eru þekkt. Þá þarf að flytja netföngin inn í Outcome kannanakerfið og búa til póstlista sem er tengdur við könnunina.

 Útsending tölvupóstkannana er frábrugðin vefkönnunum að því leyti að boðið er upp á að semja texta í tölvupóstinn ( boð um þátttöku ) í kerfinu.