Mikil framþróun rafrænna kosningakerfa

Á síðustu mánuðum hefur verið mikil áhersla á framþróun rafræna kosningakerfisins. Könnuður hefur í þó nokkur ár sinnt kosningaþjónustu fyrir íslensk félög og fyrirtæki þar sem kosið er um kjarasamninga eða tiltekin málefni. Þar hefur orðið mikil þróun og sérstaklega í málum sem snúa að auðkenningu þátttakenda, meðferð gagna og niðurstaðna ásamt því að mæta öllum kröfum GDPR ( vernd persónuupplýsinga) og uppfylla þannig öll skilyrði sem ASÍ hefur sett um framkvæmd kosninga í verkalýðshreyfingunni. Það eru ágæt viðmið sem stuðst er við í öðrum rafrænum kosningum. 

Á síðustu tveimur árum hafa komið fram óskir frá íslenskum hlutafélögum um kosningar á hluthafa- og aðalfundum þar sem fyrst og fremst er horft til rafrænna kosninga en einnig til innskráningarinnar sjálfrar þannig að vel sé haldið um mætingu og fjölda atkvæða á fundum svo eitthvað sé nefnt. Þegar rafrænar kosningar fara fram á fundum þarf önnur vinnubrögð en í hefðbundnum kosningum um kjarasamninga því öll framkvæmdin verður að ganga mjög hratt fyrir sig og fundarstjóri þarf meiri aðgang að upplýsingum um framkvæmd og niðurstöður. Könnuður hefur unnið kerfisbundið að uppbyggingu kerfa og ferla svo þetta geti gengið vel en þó með öruggum og skilvirkum hætti. 

Frá því skömmu eftir áramótin hefur margt breyst. Covid 19 hefur ýtt á að fundir séu fremur fjarfundir eða að þátttakendur hafi val um hvort þátttaka sé í gegnum skjá eða með beinni þátttöku í sal. Við þessu hefur verið brugðist og í dag eru í boði kostir þar sem fundarumsýslan er orðin víðtækari en áður. Nú er innskráningin komin inn í kosningakerfið og fundarstjóri ræður yfir umsýslutólum til að stjórna framkvæmd rafrænna kosninga úr púlti á sama tíma og auðvelt er að birta niðurstöðu strax í kjölfar kosninga. Þetta hefur nýst vel á aðalfundum vorsins, hvort sem um aðalfundi hlutafélaga hefur verið að ræða eða aðalfundi félaga með fundafulltrúa um allt land. Samhæfing við fjarfundarbúnað er sífellt að batna og áfram heldur þróunin á þessu sviði, en á haustmánuðum gögnum við enn lengra í þjónustu við fundi og gildir þar einu hvort um fjarfund eða hefðbundin fund er að ræða.

Það er okkar mat að þær aðstæður sem sköpuðust í vor hafi kveikt á perunni – Nú hefur orðið til mikill lærdómur og skilningur á því að hægt er að eiga mikil samskipti um fjarfunda og verkefnakerfi. Þó ástandið í samfélaginu lagist og eðlileg samskipti geti farið fram eru allar líkur á að áfram verði fundað í gegnum fjarfundabúnað og fjarlægð milli fólks yfirstigin með þeim hætti. 

Leave a Reply

Your email address will not be published.